154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður nefndi það hversu hratt gengur og að það væri nú allt að stefna í rétta átt. Ég klóra mér aðeins í hausnum og spyr bara: Í áttina að hverju? Hvernig vitum við í raun og veru hvort það sé eitthvað að stefna í rétta átt þegar við þekkjum ekki stöðuna á t.d. innviðaskuldinni eða þjónustuskuldinni? Við kunnum á þessar hefðbundnu peningalegu skuldir en við vitum líka alveg af þörfinni á innviðauppbyggingu til að halda í við fólksfjölgun og ýmislegt svoleiðis. Við vitum líka hvernig staðan er með biðlista í heilbrigðiskerfinu, hvernig staðan í menntakerfinu er eins og hæstv. menntamálaráðherra talaði um í gær. Hver er kostnaðurinn af slæmri stöðu þar líka í þjónustu ríkisins og þjónustuskuld, eins og mig langar að orða það?

Hv. þingmaður talaði um að stafrænu lausnirnar, þinglýsingarnar, væru að spara okkur heilan helling. Loksins, segi ég bara, alla vega áratug of seint, ansi mikið sem hefði getað sparast ef það hefði verið hlustað á Pírata hérna fyrir áratug síðan, við erum búin að vera hérna í áratug, um að fara í byltingu í stafrænni stjórnsýslu. Svo kemur svona einfaldað regluverk, án þess að maður átti sig nokkuð á því í rauninni hvað það þýðir, frá Sjálfstæðisflokknum, því þetta er nú eiginlega þeirra verk, þetta regluverk sem við erum með nú þegar hvort eð er og að miklu leyti til á skiljanlegan hátt, því að það hefur verið brugðist við ýmsum atburðum sem hafa kallað á að það þurfti að breyta reglum og bæta af því að fólk var að svindla. Ef við einföldum regluverk bara til að einfalda regluverk þá getum við líka lent í því að búa til enn þá fleiri holur sem er þá hægt að misnota í þessum opna og frjálsa markaði sem við viljum hafa.